þriðjudagur, apríl 20, 2004

Rigning...

Mér finnst rigningin góð!!! Ekki alveg, en ég ætti alla vega að vera orðin vön henni núna því að það hefur verið hellidemba í allan dag. Ég sem var orðin svo sátt við 25 stiga hitann sem hefur verið hérna að undanförnu, þá fór bara allt í einu að rigna! Annars var nú meira vesenið með leikina sem við áttum að spila, tveimur leikjum var "cancel-að" vegna þess að hitt liðið hætti við þannig að nú eigum við bara Alumni leikinn sem verður núna á laugardaginn. Annars verður hann nú ansi spennandi, gaman að spila við allar eldri stelpurnar og hitta þær allar aftur, og svo verður tekið ærlega á því um kvöldið, grillveisla og læti.

Síðasta laugardag var svokallað Athlete-Formal þar sem allt íþróttafólkið sagði skilið við sveitta búningana og kom saman í spariklæðunum og fagnaði tímabilinu sem er að verða liðið. Við stelpurnar fórum allar ásamt fótboltastrákunum þannig að það var bara ferlega gaman.

Ótrúlegt annars hvað árið hefur verið fljótt að líða, bara tvær vikur eftir af skólanum og svo lokaprófin komin. Allir kennararnir farnir að flýta sér til að troða öllu námsefninu í heilann á okkur áður en það verður of seint og við þotin í sumarfrí. Ég er annars bara að vinna í því að kaupa flugmiðana heim, ætla að vera hérna viku eftir að skólanum lýkur bara til að slaka aðeins á í góða veðrinu þannig að ég verð líklega komin heim í kringum 19. maí. Hlakka alveg svakalega til að hitta ykkur öll aftur!

En, ég bíð bara góða nótt núna, kominn tími á langþráðan svefn!