sunnudagur, maí 09, 2004

Síðustu átökin...

Jæja, eins og vanalega þá er mín dáldið löt að skrifa en það verður bara að hafa það. Undanfarnar þrjár vikur hafa verið all svakalegar því svo virðist sem allir kennararnir hafi þurft að hlaða helmingnum af námsefninu í síðustu kennsluvikurnar. Það var því lítið um svefn, bara lært og Mountain Dew drukkið í lítratali til að halda sér vakandi. Þetta tókst samt allt saman með herkjum og núna er ég akkúrat hálfnuð í lokaprófunum, fór í tvö fyrir helgi og fer í tvö á morgun, plús það að ég á að skila fimm blaðsíðna ritgerð á spænsku! sjáum nú bara til hvernig það fer.

Í gær var alveg frábært veður, rúmlega 25°C, sól og hiti, þannig að við stelpurnar fórum upp að vatni sem er hérna rétt hjá. Ég þóttist auðvitað vera duglegur námsmaður og tók skruddurnar með mér en það endaði ekki betur en svo að ég lá svo mikið á maganum til að "lesa" að öll bakhliðin, frá ökklum upp að öxlum, er ansi rauð ;) Svo virðist sem ég læri aldrei að nota sólarvörn.

Við Moe flytjum úr vistinni núna á þriðjudaginn, þannig að ég verð að fara að pakka svona smátt og smátt. Er búin að tala við Paul um að fá að geyma draslið í bílskúrnum hjá honum því þetta kemst ekki allt í ferðatöskurnar tvær sem ég kem með heim um sumarið. Ég fékk einmitt miðana í hendurnar núna fyrir helgi, kem heim eldsnemma um morguninn þann 20. maí. Hlakka alveg obboðslega til að hitta ykkur öll aftur. Eins og vanalega þá verður mín að vinna í Byko (það verður fjör) og svo væntanlega eitthvað að sprikla í boltanum líka...

Og já, ég var næstum því búin að gleyma þessu: við svoleiðis burstuðum Alumni leikinn 7-0 að það var engu líkt. Þær hafa samt nokkrar afsakanir... allar hættar í boltanum og hafa ekki spilað í nokkur ár, tveir leikmenn óléttar, ekki í formi, ekki æft saman, og vel þunnar eftir svakalegt djamm kvöldið áður.... spurning hvað það segir um liðið okkar, kanski við hefðum átt að vinna þær stærra ;)

En jæja, það er víst kominn tími til að hætta þessu og snúa sér aftur að bókunum! Later...

p.s. sjáumst eftir 10 daga! það er ótrúlegt hvað þessi önn hefur verið fljót að líða!