þriðjudagur, janúar 18, 2005

Enn ein önnin byrjuð!!!

Jæja, skólinn bara byrjaður aftur eftir allt of stutt jólafrí! Þetta er ekki alveg nógu gott. Þetta var nú annars bara alveg frábært jólafrí, altaf gaman að hitta familíuna aftur og djamma með vinunum o.s.frv. Svo var 21 árs afmælinu náttla fagnað um helgina þegar ég og Nolyn fórum til Chicago. Loksins er ég orðin lögleg að drekka hérna í Ameríkunni, stelpan orðin háöldruð og það fer að styttast í ellilífeyrinn... nei vá, maður er nú kanski ekki alveg svona gamall en samt, ferlega halló að maður þurfi að vera 21 til að drekka og fara inn á skemmtistaði hérna.

En allavega, svo ég byrji nú á því að segja frá Chicago ferðinn (sem var frábær, bæ ðe vei). Við vöknuðum snemma á föstudeginum til að gera okkur reddí, vorum búin að smyrja nesti og allt saman kvöldið áður þannig að það ekki mikið sem var eftir. Samt auðvitað, týpískt við, þá vorum við á síðasta snúningi því við höfðum gleymt því að við þurftum að fara í bankann og soleis snatt. Allavega, þá brunuðum við upp á lestarstöðina sem er svona korter fyrir utan bæinn, og þar sem hvorugt okkar hafði farið í lest áður þá tókst okkur að villast smávegis en á endanum hafðist það og við vorum kominn á lestarstöðina 2 mín fyrir brottför. Og nema hvað, lestin var 45 mín of sein þannig að við þurftum að bíða heillengi. Á lestarstöðinni var fleira fólk að bíða, og þeirra á meðal voru tvær eða þrjár Amish fjölskyldur. Þið kannist kanski við svona fólk úr bíómyndum en það notar engar nútímavörur og þægindi eins og rafmagn, hita, bíla, verslanir, og þess háttar og þau aka um á hestvögnum. Það er víst þónokkuð mikið af amish fólki hérna á þessu svæði þannig að maður sér þau af og til. Þau voru öll klædd í svona blá heimasaumuð föt, stelpurnar í pilsum með svuntur og slæður (líka ein sem var svona 2ja ára) og karlarnir í alveg eins bláum buxum og skyrtum og með hatta og sítt skegg. Ferlega skrítið. Það versta var samt að þetta var nú ekki stór biðsalur þannig að við sátum nokkuð þétt saman og Amish liðið fyllti svona helminginn með krakkana hlaupandi um allt, og þau lyktuðu alveg hræðilega! Ég held ég hafi sjaldan hitt annan eins hóp af illalyktandi fólki! Kanski engin furða því ég efast um að þau fari í bað oftar ein einu sinni í viku. En jæja, það var ekkert við því að gera og sem betur fer þá kom lestin loksins og við sátum hvergi nærri þeim.

Eftir tæplega 6 tíma í lestinni og nokkur vodka-í-sprite glös þá fórum við á sýningu sem hét The Blue Man Group. Frábær sýning!!! Það er dáldið erfitt að útskýra þessa sýningu en í stuttu máli þá eru þetta þrír menn sem eru allir blá málaðir. Þeir spila á hljóðfæri sem þeir búa til úr rörum og öðru drasli og mikill partur af sýningunni gengur út á hljóðin sem þeir búa til, en þeir tala ekkert þannig að það er mikið um látbragð og soleis. Þeir líta eiginlega bara út eins og geimverur, alveg bláir og svo glansandi og þeir sýna engin svipbrigði þegar þeir labba svo um salinn og beinlínis stara áþig. Þeir gerðu það við mig eitt skiptið, komu allir þrír alveg að manni og bara stara. Ég vissi náttla ekkert hvað ég átti að gera og vildi helst bara hverfa. Svo sem betur fer þá þurfti ég ekki að fara upp á svið með þeim en næstu stelpu fyrir aftan mig tóku þeir og létu gera ýmis trikk með sér. Allavega þá var þetta bara frábær sýning og ferlega fyndin!

Eftir sýninguna fórum við á einhvern píanóbar, sem var ekkert alveg að gera sig, ekki fyrir mig í það minnsta. Bara hellingur af einhverju plebbaliði sem var komið yfir þrítugt eða fertugt, þannig að við fórum þaðan fljótt. Löbbuðum síðan á einhvern dans klúbbinn og djömmuðum þar í smástund. Annars skemmdi það dáldið fyrir kvöldinu að það var svo kalt úti að við vorum frosin eftir 5 mínútna göngu frá barnum á klúbbinn þannig að það rann fljótt af manni. Ég heild að það hafi verið rúmlega -15°C frost og vindur. Þannig að við lögðum ekki í það að labba á hótelið, þrátt fyrir að það hafi verið á sömu götu (kanski 10 mín í burtu) þannig að við tóku leigubíl til baka. Og umferðin þarna er nú alveg spes. Við vorum þarna niðrí miðbænum við Michigan Avenue þar sem aðalbúðirnar og allt er þannig að flestar göturnar voru einstefnugötur. Nema hvað að það var erfitt að greina hversu margar akreinar voru því bílarnir voru allir sikksakkandi út um allt, sér í lagi leigubílarnir. Akandi bara eins og þeir væru einir í heiminum. Svo í eitt skiptið þegar við vorum í taxanum þá var eins og einhver ætlaði að svína fyrir okkur þanni að minn maður bara leggst á flautuna, hægir á sér og rúllar niður rúðunni og gargar og gaular á hinn bílstjórann og hótar öllu illu. Ég hefði ábyggilega gert á mig af hræðslu ef þetta hefði verið ég í hinum bílnum því bílstjórinn var stór og stæðilegur og svartur og greinilega úr gettóinu. Þannig að við Nolyn sitjum bara aftur í og þorum ekki að segja neitt af ótta við að hann snúi okkur úr hálsliðunum.

Laugardaginn byrjuðum við svona sæmilega snemma, þrátt fyrir smá þynnku og byrjuðum á því að fara í Sears Tower. Hæstu bygginguna í Chicago. Við fórum upp á 99. hæð (var verið að laga hæð 103 þannig við komumst ekki þangað). Samt alveg frábært útsýni og maður sá út um allt. Tók ekki nema svona 15 til 20 sekúndur að ferðast alla þessa leið í lyftunni!!! Eftir það fórum við í Shedd Aqarium sem var líka mjög gaman. Fór á svona höfrunga sýningu og svo skoðuðum við okkur bara um safnið, fullt af alls konar furðufiskum. Við borðuðum á einhverjum frægum chicago pizzustað, en þau eru víst fræg fyrir svona deep-dish pizzur. Þær voru alveg ágætar. Eftir allt túrista flakkið þá fórum við aftur á hótelið og svo um kvöldið fórum við á einhvern veitingastað sem var eins og hann væri frá sjöunda áratugnum. Plús það að allir þjónarnir voru með ákveðin hlutverk eins og t.d. okkar var Frenchy úr Grease og talaði alveg ferlega hallærislega og var með kisugleraugu, og svo var annar sem var altaf reiður og gargaði á kúnnana. Þetta var allavega ferlega fyndið. Eftir það fórum við á annan bar sem var bara mjög skemmtilegur þannig að við vorum þar eitthvað frameftir kvöldi.

Við höfðum ákveðið að við ætluðum að fara versla á sunnudeginum áður en við færum heim, þannig að við lögðum í hann rétt fyrir hádegi. Um leið og við stigum út úr hótelinu vissi ég að það yrði lítið verslað því það var svo kalt og hvasst að það var ekkert smá. Ég var ábyggilega í sautján lögum að ofan og svo í gallabuxum að neðan sem voru gegnfrosnar þegar göngutúrnum lauk. Við stukkum alltaf inn í búðir með stuttu millibili til að hlýja okkur en mér var svo kalt að ég gat ekki hugsað mér að fara að máta eitthvað. Þannig að þrátt fyrir að hafa labbað um u.þ.b. helminginn af Michigan Avenue (sem er sirka 100 sinnum stærri en laugarvegurinn) þá keypti ég bara einn bol!! Frostið var komið í mínus á Farenheit þannig að það var ábyggilega -20 á celcius... allavega þá hefur mér aldrei verið svona kalt, og þó er mér altaf kalt!

En jæja, ferðin heppnaðist bara vel, og við komumst í lestina heim á réttum tíma. Reyndar þurftum við að hlaupa ansi hart til þess að komast ÚR lestinni á réttum stað því við heyrðum ekki þegar kallað var að við værum komin til Kirksville. Hefðum annars lent í ansi miklu vandræðu því endastöð lestarinnar var í L.A. sem er svona 20 tíma akstur héðan.

Þegar heim var komið þá voru flestar stelpurnar komnar heim þannig að við djömmuðum smá með strákunum á sunnudagskvöldinu. Í gær var svo bara slakað á, tók smá til í herberginu mínu og svoleiðis. Skólinn byrjaði svo í dag með músík tíma (ekki spyrja mig afhverju ég sé að taka þennan tíma) og svo eðlisfræði. Var samt ekkert alltof sátt því venjulega þá fær maður að sleppa fyrr úr tímunum svona á fyrsta degin en báðir kennararnir ákváðu að byrja bara strax að kenna! Svo er fundur á eftir í fótboltanum þar sem ákveðið verður hvernig vorið eigi að vera. Kanski verður líka farið til Englands í sumar áður en tímabilið hefst. En jæja, þetta er nú komið gott! Adios

1 Comments:

At 22. janúar 2005 kl. 14:02, Anonymous Nafnlaus said...

Hljómar allt voda gaman hjá thér, ég hefdi samt ekki látid frostid bitna á verslunarleidangrinum ;) kv-#3

 

Skrifa ummæli

<< Home