föstudagur, október 07, 2005

Jæja, hvað er eiginlega að frétta....

Ansi langt síðan síðast og maður hefur lítið látið í sér heyra á klakanum... en betra seint en aldrei, ekki satt? Þessi önn hefur bara gengið sinn vanagang svo sem, bara verið aðeins of mikið að gera eins og venjulega en það verður bara að hafa það. Skólinn alveg á fullu, tók fimm próf í síðustu viku sem var ansi mikil törn en það hafðist... fólk var farið að halda að ég byggi á bókasafninu. Svo er líka allt brjálað að gera í boltanum. Tímabilið hálfnað og við að rembast við að vinna riðilinn aftur og komast í úrslitakeppnina. Verðum líklega að vinna alla leiki sem eftir eru því við töpuðum nokkrum í byrjun tímabilsins, þannig að við verðum að taka á honum stóra okkar. Á morgun keppum við við Northwest og á sunnudaginn keppum við við Central þannig að það dugar ekkert nema harkan!

Annars er það nú að frétta að mamma og pabbi ætla að kíkja til mín eftir tæpan mánuð!! Þau rétt ná síðustu tveimur leikjunum á tímabilinu og svo ætlum við að rúnta eitthvert og versla nokkrar jólagjafir (helst bara fyrir mig). Það verður án efa voða gaman og ég hlakka til að fá þau í heimsókn. En jæja, ég ætla að fara að fá mér eitthvað í gogginn... ég reyni að skrifa eitthvað aftur fljótlega ;)