föstudagur, október 07, 2005

Jæja, hvað er eiginlega að frétta....

Ansi langt síðan síðast og maður hefur lítið látið í sér heyra á klakanum... en betra seint en aldrei, ekki satt? Þessi önn hefur bara gengið sinn vanagang svo sem, bara verið aðeins of mikið að gera eins og venjulega en það verður bara að hafa það. Skólinn alveg á fullu, tók fimm próf í síðustu viku sem var ansi mikil törn en það hafðist... fólk var farið að halda að ég byggi á bókasafninu. Svo er líka allt brjálað að gera í boltanum. Tímabilið hálfnað og við að rembast við að vinna riðilinn aftur og komast í úrslitakeppnina. Verðum líklega að vinna alla leiki sem eftir eru því við töpuðum nokkrum í byrjun tímabilsins, þannig að við verðum að taka á honum stóra okkar. Á morgun keppum við við Northwest og á sunnudaginn keppum við við Central þannig að það dugar ekkert nema harkan!

Annars er það nú að frétta að mamma og pabbi ætla að kíkja til mín eftir tæpan mánuð!! Þau rétt ná síðustu tveimur leikjunum á tímabilinu og svo ætlum við að rúnta eitthvert og versla nokkrar jólagjafir (helst bara fyrir mig). Það verður án efa voða gaman og ég hlakka til að fá þau í heimsókn. En jæja, ég ætla að fara að fá mér eitthvað í gogginn... ég reyni að skrifa eitthvað aftur fljótlega ;)

1 Comments:

At 15. október 2005 kl. 14:38, Anonymous Nafnlaus said...

Sæl elsku Ásdís okkar,
Við frænkurnar og frænkur þínar sitjum hér við tölvuna hennar Svövu og sáum nafn þitt yfir blogg síður og að sjálfsögðu kíktum við á síðuna þína. Satt best að segja þá tók Rúna frænka gleðikipp er ég sagði "´hér er heimasíðan hennar Ásdísar - eigum við að kíkja á hana?" Já, sagði gamla konan og lyftist í sætinu af kæti. Takk fyrir að hafa skrifað á síðuna þína og gaman að frétta eitthvað af þér. Við vorum að borða heimalagaða pizzu að hætti Siggu frænku rétt áðan og erum núna að kynnast nýjustu tækni tölvunnar. Svei mér þá ef Rúna pantar ekki bara tölvu í jólagjöf. Svo það er nú aldeilis gott að þið þ.e. þú og þínir foreldrar eruð að fara í jólagjafainnkaup. Rúna segir bara annars allt gott er á Hrafnistu innan um tóma ellismelli og rugludalla eins og hún segir - um daginn ætlaði hún að fá sér í gogginn eins og þú kæra Ásdís myndir segja og þá mætti hún einni gamalli sem sagði henni bara að halda kjafti og fá sér sæti. Skemmtilegar móttökur á elliheimilun en þar á víst að vera saman komin elskuleg gamalmenni
:-O. En hún segist hafa það gott og láti stjana við sig og er meira eða minna farin að sitja í hjólastól. verðum að kveðja núna en það birtist listamaður hér á tröppunum og Rúna frænka komin í kolaportsfíling. Kveðja Sigga og Rúna.

 

Skrifa ummæli

<< Home